Ætla spara 100 milljarða króna á ári

Reikningsárið hjá SAS byrjar 1. nóvember og nú í morgunsárið birti félagið uppgjör fyrir fyrsta fjórðunginn sem nær frá nóvember í fyrra til janúar í ár. Niðurstaðan er tap uppá 2,6 milljarða króna sem jafngildir um 35 milljörðum króna. Þetta mikla tap er þó ekki lykilatriðið í uppgjöri SAS heldur þær aðgerðir sem stjórnendur þess boða.

Í tilkynningu er bent á að flugfélagið hafi ekki í áraraðir verið samkeppnishæft þegar kemur að kostnaði og í ofan á lag þá hafi síðustu tvö ár verið þau erfiðustu sem fluggeirinn hafi gengið í gegnum. Ferðahegðun neytenda hafi breyst og markaðurinn sömuleiðis og nú þurfi í raun að endurræsa SAS eins og segir í tilkynningu.

Þar er boðuð umbylting á starfseminni sem hafa muni áhrif á leiðakerfi, flota og kjarasamninga félagsins en líka á allan annan kostnað. Þessar aðgerðir eiga að spara félaginu árlega um 100 milljarða króna á ári (7,5 milljarða sænskra).

Til viðbótar telja stjórnendur SAS óumflýjanlegt að félagið fái inn meira hlutafé en í dag á danska ríkið 22 prósent hlut í SAS og hlutur þess sænska er álíka stór. Ríkissjóðir beggja landa eru auk þess helstu lánadrottnar félagsins.