Afsala sér ríkisábyrgðinni

Frá Heathrow í London en íslenska ríkið átti að fá veð í lendingarleyfum Icelandair á flugvellinum ef félagið hefði dregið á lánalínu hins opinbera. Mynd: London Heathrow

Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair Group haustið 2020 þá samþykkti Alþingi að ábyrgjast 90 prósent af mögulegri lántöku Icelandair. Heimildin hljóðaði upp á allt að 120 milljón dollara lán sem jafngildir 15 milljörðum króna í dag. Íslandsbanki og Landsbanki skuldbundu sig til að veita lánið ef á þyrfti að halda. Icelandair hefur hins vegar ekki enn nýtt lánaheimildina og geri það ekki úr þessu því í dag afsöluðu stjórnendur flugfélagsins sér heimildinni en hún gilti fram í september á þessu ári.

Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra, að lánaínan og ábyrgð ríkisins á henni hafi verið nauðsynlegur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.

„Þrátt fyrir að neikvæð áhrif faraldursins á starfsemi okkar, sérstaklega á fyrri hluta ársins, fluttum við 1,5 milljón farþega á síðasta ári og jukum flugframboð í 65 prósent af því sem það var á árinu 2019. Samhliða uppbyggingu leiðakerfisins þéttum við raðirnar á ný og réðum til okkar hátt í eitt þúsund starfsmenn á árinu. Nú þegar flugfélög og ferðaþjónusta færast nær eðlilegri starfsemi á ný, er ég þess fullviss að við hjá Icelandair höfum það sem þarf til að ná meginmarkmiði okkar í kjölfar faraldursins – að koma félaginu í sjálfbæran rekstur,“ bætir Bogi við.