Beint flug til fimm ítalskra borga í ár

Frá Napólí. Mynd: Danilo dgostino

Íslensk flugfélög hafa sýnt Ítalíu lítinn áhuga og til marks um það hefur Icelandair vanalega látið duga að fljúga til Mílanó yfir sumarmánuðina. Núna ætlar félagið að bæta við flugi til Rómar í júlí og ágúst og þannig fær Wizz Air samkeppni í flugi frá ítölsku höfuðborginni til Íslands yfir hásumarið.

Þetta næststærsta lággjaldaflugfélag Evrópu er annars stórtækt í Íslandsflugi frá Ítalíu því þotur Wizz Air fljúga líka til Keflavíkurflugvallar frá Mílanó og Napólí. Í vor bætist svo fjórða flugleiðin við þegar ungverska félagið fer jómfrúarferð sína hingað frá Feneyjum.

Til viðbótar við þetta þá ætlar Play að hefja flug til Bologna í sumar en sú borg var hluti af sumaráætlun Iceland Express á sínum tíma.

Eins og sjá má á flugáætluninni hér fyrir neðan þá eru ferðirnar fáar í viku hverri til hvers áfangastaðar fyrir sig. Sérstaklega yfir sumarið.

Flugáætlunin

Bologna – Play á þriðjudögum og laugardögum frá 7. júní til 20. september.

Feneyjar – Wizz Air á þriðjudögum og laugardögum frá 29. mars til 29. október. Frá 30. október flogið á miðvikudögum og sunnudögum.

Mílanó – Wizz Air á mánudögum og föstudögum til 25. mars. Síðan á þriðjudögum og laugardögum til september. Þá bætist við brottför á fimmtudögum. Icelandair á miðvikudögum og sunnudögum frá 8.maí og fram í júní. Síðan á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum til loka október.

Napólí – Wizz Air á miðvikudögum og sunnudögum frá lokum mars og fram í lok október.

Róm – Wizz Air þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga frá lokum mars til loka október. Icelandair frá byrjun júlí og til loka ágúst.

BERA SAMAN VERÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM Á ÍTALÍU