Erfitt ár en batamerki í lokin

Tölvuteikning: Icelandair

Icelandair tapaði 13,1 milljarði króna (105 milljónum dollara) á síðasta ári en þetta er fjórða árið í röð sem rekstur félagsins er öfugum megin við núllið. Síðustu tvö ár hefur heimsfaraldurinn skiljanlega haft gríðarlega neikvæð áhrif á reksturinn.

Fyrri hluta nýliðins árs lágu ferðalög milli landa að miklu leyti niðri og á tímabili flugu þotur Icelandair aðeins tíu ferðir í viku.

Í kjölfar bólusetninga vegna Covid-19 jókst millilandaflug og hagur Icelandair batnaði. Til marks um það þá var Ebit afkoma félagsins betri á síðasta fjórðungi 2021 en verið hefur á þessum tíma síðan árið 2016 eins og sjá má hér fyrir neðan.

Í tilkynningu er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að stefnt sé að jákvæðri afkomu í ár en hann segir að möguleg áframhaldandi áhrif heimsfaraldursins á eftirspurn og sveiflur í eldsneytisverði geti haft neikvæð áhrif á það markmið.