Fá sæti laus í sólarlandaferðir um páskana

Íslendingar hafa bókað sólarlandaferðir af kappi síðustu daga. Sérstaklega vilja margir út um páskana á suðrænar slóðir. Mynd: Ferðamálaráð Kanaríeyja

Sala á utanlandsferðum hefur aukist hratt í kjölfar þess að slakað hefur verið á sóttvarnaraðgerðum víða um Evrópu. Af þeim sökum óttast forstjóri Tui, stærstu ferðaskrifstofu Evrópu, að framboð á páskaferðum á suðrænar slóðir verði einfaldlega of lítið.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist deila þessum áhyggjum með forstjóra Tui og nú sé til skoðunar þar á bæ að fjölga brottförum fyrir páskana til að mæta eftirspurninni. Þórunn segir fólk einnig vera að bóka ferðir á sólarstrendur með stuttum fyrirvara og eins hafi salan fyrir sumarið tekið kipp. Því til viðbótar séu sumir farnir að tryggja sér sæti í ferðir um næstu jól og áramót að sögn Þórunnar.

Hjá Heimsferðum verða á boðstólum ferðir til Alicante, Kanarí, Costa del Sol, Tenerife og Verona um páskana og í dag eru fá sæti á lausu að sögn Tómasar J. Gestssonar, forstjóra. Þrátt fyrir að tveimur brottförum til Tenerife hafi verið bætt við. Tómas bendir á að páskar séu vanalega mjög vinsælir til ferðalaga út í heim og á því sé engin breyting núna.

Staðan hjá Vita er álíka því þar eru ferðir um páska nær uppseldar segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar. „Þannig að framboðið er lítið miðað við eftirspurnina sem er gríðarleg núna þegar verið er að létta á öllum takmörkunum,“ bætir Þráinn við.