Flugfélögin réttu úr kútnum

Wizz Air er hástökkvari dagsins í flokki flugfélaga í evrópskum kauphöllum. Þrjár af þotum félagsins eru engu að síður fastar í Kænugarði. Wizz Air

Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í gær þá lækkaði gengi í hlutabréfa í evrópskum flugfélögum töluvert. Í dag voru hækkanir aftur á móti umtalsverðar. Þannig fór gengi Icelandair upp um sjö af hundraði og er virði félagsins núna rétt um þremur prósentum lægra en það var áður en Pútin skipaði hernum sínum að hefja árás.

Gengi Play á lengra í land því það er fimm prósentum lægra núna en það var í lok viðskipta á miðvikudaginn.

Líkt og fram kom í grein Túrista í gær þá er Wizz Air næst umsvifamesta flugfélagið í flug til og frá Úkraínu. Þrjár Airbus þotur félagsins eru til að mynda á alþjóðaflugvellinum í Kænugarði þessa stundina. Hlutabréfin í Wizz Air hækkuðu um 11 prósent í dag sem er hlutfallslega á pari við lækkun gærdagsins.

Þessar miklu hækkanir í dag, þrátt fyrir stríðið sem nú geysar í Úkraínu, skrifast að einhverju leyti á lækkun olíuverðs síðastliðinn sólarhring. Þar með lækkar olíureikningur flugfélaganna um nokkur prósent og það munar um minna. Þannig keypti Icelandair eldsneyti fyrir um fimm milljarða króna á síðasta ársfjórðungi nýliðins árs.