Gengi flugfélaga niður í takt við önnur hlutabréf

MYND: NILS NEDEL / UNSPLASH

Hin stigmagnandi ótti við að Rússar ráðist inn í Úkraínu heldur áfram að þrýsta gengi hlutabréfa í evrópskum kauphöllum niður á við. Nú í morgunsárið lækka bréfin hratt í mörgum félögum og þar á meðal flugfélögum. Þannig hefur gengi IAG, móðurfélags British Airways og Iberia, fallið um nærri átta af hundraði og það sama er upp á teningnum hjá SAS, stærsta flugfélagi Norðurlanda og Air France-KLM samsteypunni.

Virði Wizz Air hefur fallið um níu prósent í fyrstu viðskiptum dagsins en það félag er mjög stórtækt í austurhluta Evrópu. Lækkunin hjá Ryanair, stærsta lágfargjaldaflugfélagi Evrópu, er minni eða um fjögur prósent.

Olíuverð hefur einnig hækkað í morgun og er verð á Norðursjávarolíu núna um fimmtungi hærra en það var í ársbyrjun.