Höfuðborgarsvæðið fær líka áfangastaðastofu

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Nú hafa verið stofnaðar svokallaðar áfangastaðastofur í öllum landshlutum og á höfuðborgarsvæðinu. Mynd: Sigurjón Ragnar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa undirritað samning um stofnun samstarfsvettvangs sveitarfélaga og atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið. Þar með fær höfuðborgarsvæðið sína eigin áfangastaðastofu en búið er stofna þess háttar í öllum landshlutum.

Tilgangurinn er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi ferðaþjónustu á starfssvæði samtakanna að því segir í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir ráðherra ferðamála að samningurinn miði að því að settur verði á fót samstarfsvettvangur sveitarfélaga og atvinnulífs um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið. Þannig verði stutt við þróun áfangastaðarins í átt að sjálfbærri framtíðarsýn og aukinni samkeppnishæfni. Áhersla verði á þróun og kynningar- og markaðsstarf ásamt samlegð og samtali hagaðila í ferðaþjónustu og tengdra aðila. Unnið verði að því að samstarfsvettvangurinn verði við árslok 2022 að áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins.