Markaðsstjóraskipti hjá Play

Anna Fríða Gísladóttir er nýr markaðsstjóri Play. AÐSEND MYND

Anna Fríða Gísladóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála hjá Play. Hún tekur við stöðunni af Steinari Þór Ólafssyni sem hóf störf hjá Play fyrir hálfu ári síðan.

Anna Fríða er 31 árs og kemur til Play frá húðvörufyrirtækinu Bioeffect þar sem hún starfaði sem vörumerkjastjóri á alþjóðavísu ásamt því að sjá um markaðsmál fyrirtækisins á Íslandi. Þar áður var Anna Fríða markaðsstjóri Domino´s á Íslandi í 7 ár og sat í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Play, segir í tilkynningu að alþjóðleg reynsla Önnu Fríðu komi sér vel við að kynna flugfélagið á erlendri grundu.

„Ég hlakka mikið til að vera hluti af uppbyggingu hjá Play sem hefur átt virkilega öfluga innkomu á flugmarkaðinn. Félagið hefur unnið faglegt og metnaðarfullt starf í markaðsmálum og það verður spennandi að halda þeirri vegferð áfram,“ skrifar hinn nýráðni markaðsstjóri í tilkynningu.