Nálgast metárið 2018

Fjögur flugfélög hafa nú sett á dagskrá daglegar áætlunarferðir milli New York og Íslands.

Samkeppnin um farþega á leið milli New York og Íslands gæti orðið hörð í sumar. MYND: Hector Arguello / UNSPLASH

Framboð á flugi héðan til fjölmennustu borgar Bandaríkjanna verður óvenju mikið í sumar í samanburði við það sem verið hefur síðustu ár.

Það verður nefnilega hægt að velja úr sex brottförum á degi hverjum frá Keflavíkurflugvelli til borgarinnar sem er töluvert meira en verið hefur ef metárið 2018 er undanskilið. Þá komu hingað fleiri erlendir ferðamenn en nokkru sinni áður eða um 2,3 milljónir. Þar af um þrjú hundruð þúsund Bandaríkjamenn yfir sumarmánuðina þrjá.

Á þeim tíma flugu þotur Delta, Icelandair, United Airlines og Wow Air að jafnaði 52 ferðir í viku frá Keflavíkurflugvelli til New York. Nú í sumar stefnir aftur á móti 42 brottfarir í viku því í morgun hóf Play sölu á daglegum ferðum til borgarinnar. Þetta eru tíðari ferðir en verið hefur síðustu sumarvertíðir ef árið 2018 er undanskilið eins og sjá má á töflunni.

Líkt og sumarið 2018 verða flugfélögin fjögur um New York ferðirnar. Og af þeim er Icelandair stórtækast en sumaráætlun félagsins gerir ráð fyrir tveimur ferðum á dag til JFK flugvallar og daglegum brottförum til Newark. Þotur Delta munu svo fljúga hingað alla daga vikunnar frá fyrrnefnda flugvellinum og United jafn oft en frá Newark.

Útgerð Play í heimsborginni verður aftur á móti á Stewart flugvallar sem er um 100 kílómetrum fyrir norðan Manhattan-eyju.