Nýju langdrægu þoturnar til Toronto

Frá og með sumrinu verður Icelandair ekki eina norræna flugfélagið í fjölmennustu borg Kanada.

Þrátt fyrir að vera fjórða fjölmennasta borg Norður-Ameríku þá hefur Toronto ekki verið hluti af leiðakerfi SAS fyrr en núna. Mynd: Conor Samuel / Unsplash

Stærsta flugfélaga Norðurland, SAS, þarf ekki lengur að nota breiðþotur til að fljúga til Norður-Ameríku. Félagið festi nefnilega kaup á hinum langdrægu Airbus A321LR þotum á sínum tíma og hefur nú tekið tvær þeirra í notkun. Eru þær meðal annars nýttar til að fljúga milli Kaupmannahafnar og Boston. Frá og með byrjun júní munu þotur af þessari gerð líka fljúga farþegum SAS til Toronto frá bæði Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.

Þetta verður í fyrsta sinn sem kanadíska borgin verður hluti af flugáætlun SAS en Icelandair hefur lengi verið umsvifamikið í Toronto. Og íslenska félagið er líka með tíðar ferðir til Kaupmannahafnar og Stokkhólms og hefur því vafalítið í gegnum tíðina notið góðs af skorti á beinu flugi frá þessum borgum til fjórðu fjölmennustu borgar Norður-Ameríku.

Núna hyggst SAS koma inn á þann markað en yfir sumarmánuðina býður líka Air Canada upp á ferðir frá Toronto til Kaupmannahafnar.

Í nýju Airbus þotum SAS eru aðeins sæti fyrir 157 farþega og þar af tuttugu og tvo á viðskiptafarrými.