Play hækkar á meðan hin flugfélögin lækka

Þota Play við flugstöðina í Amsterdam. Mynd: Schipol Airport Amsterdam

Markaðsvirði Play er í dag 18 milljarðar króna eftir að hafa hækkað um 1,4 milljarða króna frá opnun kauphallarinnar á mánudagsmorgun. Hlutfallslega nam hækkunin 8,4 prósentum í vikunni.

Gengi hlutabréfa í öðrum norrænum flugfélögum þróaðist á mestu í hina áttina. Gengi bréfa í Norwegian og Finnair komst reyndar á smá flug í kjölfar ársuppgjöra félaganna tveggja undir lok vikunnar en fór svo niður á við. Hlutabréfin í Icelandair lækkuðu einnig á síðasta viðskiptadegi vikunnar.

Gengi norsku nýliðanna í Flyr hækkaði þó um eitt prósent í vikunni. Skýringin á því liggur helst í mikilli hækkun á miðvikudaginn í kjölfar þess að norski bankinn DNB birti mjög neikvætt mat á stöðu SAS. Sú greining varð til þess að hlutabréfin í SAS féllu um fjórðung og náði sér ekki á strik fyrir lokun kauphalla í gær.