Regla um Covid-próf fyrir Íslandsferð verði felld niður

Úr Leifsstöð. MYND: GOLLI / STJÓRNARRÁÐIÐ

Bólusettir erlendir ferðamenn sem hingað koma verða að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr nýju Covid-19 prófi áður en farið er um borð í flugvél á leið til Íslands. Nú skora Samtök ferðaþjónustunnar á stjórnvöld að aflétta strax þessari kröfu á sama tíma og aflétting takmarkana innanlands hefur verið boðuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum

„Það er óásættanlegt að aukahindrunum á bólusetta ferðamenn sé viðhaldið með tilheyrandi efnahagslegum skaða á sama tíma og tilkynnt er að allar aðstæður séu nú til staðar til að aflétta sóttvarnatakmörkunum, m.a. að hætta á ofálagi á heilbrigðiskerfið sé ekki lengur jafn mikil og áður. SAF benda sem fyrr á að allar aðgerðir varðandi sóttvarnir á landamærum hafa áhrif langt fram í tímann og að áframhaldandi takmarkanir muni hafa ótvíræð neikvæð áhrif á eftirspurn ferðaþjónustu inn í sumarið,“ segir í tilkynningu Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þar er einnig vísað til þess að Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, hafi í janúar gefið út yfirlýsingu þar sem ríki heims eru hvött til að láta af landamærahindrunum í sóttvarnaskyni, enda hafi slíkar hindranir ekki skilað tilætluðum árangri heldur auki þvert á móti á efnahagslegan og félagslegan vanda vegna faraldursins.