Segjast ekki hafa skipt um kúrs eins og forstjóri Play heldur fram

Mynd: Arctic Adventures

Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði í viðtali við viðskiptakálfs Moggans í gær að stórar bókunarsíður eins og Google Flights og Expedia séu að ná tökum á flugmarkaðnum. Sagðist hann geta séð fyrir sér að í framtíðinni yrðu flugfélögin sjálf undirverktakar hjá fyrirtækjum eins og Google.

Birgir bætti því við að vísir að þessu væri nú þegar í ferðaþjónustunni hér á landi og tilgreindi sérstaklega bókunarsíðurnar Guide To Iceland og Booking en líka Arctic Adventures sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

„Þau eru í fæstum tilvikum að veita sjálfa þjónustuna og í tilviki síðastnefnda fyrirtækisins eru þeir einfaldlega að færa sig út úr því að sinna þjónustunni sjálfri. Þeir hafa áttað sig á því hvar peningurinn liggur,“ fullyrti Birgir.

Aðspurð segist Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, ekki kannast við þessa meintu stefnubreytingu í rekstri fyrirtækisins.

„Það hefur alltaf verið markmið okkar hjá Arctic Adventures að selja fyrst og fremst okkar eigin ferðir. Það markmið hefur ekki breyst og mun ekki breytast. Okkar styrkleiki liggur í því að vera bæði góð í því að framleiða ferðir og að geta selt þær sjálf. Við erum stór í afþreyingu ferðamanna á Íslandi og leggjum okkur öll fram við að veita viðskiptavinum upplifun sem hvergi er annars staðar að finna. Við erum því svo sannarlega að veita mikla þjónustu jafnt núna sem áður fyrr og það hefur ekki orðið breyting í þeim efnum,“ útskýrir Gréta.

Hún bætir við að Arctic Adventures eigi vefsíðuna Adventures.com en þar eru á boðstólum ferðir í fleiri löndum en bara á Íslandi. „Og þar erum við að sjálfsögðu að selja fyrir aðra,“ segir forstjóri Arctic Adventures að lokum.