Stefnir í skort á bílaleigubílum í sumar

island vegur ferdinand stohr
Stór hluti erlendra ferðamanna hér á landi leigir sér bílaleigubíl til að ferðast um landið. Mynd: Ferdinand Stohr / Unsplash

„Þetta verður klikkað sumar. Við sjáum það á bókunum að þær eru margar og töluvert fleiri en 2019 fyrir bílaleigubílana. Fólk er að átta sig á stöðunni og er að bóka fyrr og þar af leiðandi verðum við örugglega uppseldir í maí,“ segir Hjálmar Pétursson hjá Avis bílaleigu í samtali við RÚV.

Skýringin á þessari stöðu liggur ekki bara í mikilli eftirspurn heldur líka þeirri staðreynd að bílaleigurnar fá ekki eins marga bíla og þær vilja. Þannig hefur bílaleigan Hertz tryggt sér um sjö hundruð bíla af þeim eitt þúsund sem fyrirtækið hyggst kaupa fyrir sumarið.

Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar tekur í sama streng í samtali við RÚV.  „Áhuginn hjá framleiðendum á framleiðslu ódýrari bíla er minni núna en fyrir Covid.“ Hann segir að Bílaleiga Akureyrar hafi tryggt sér um tvo þriðju af þeim bílum sem fyrirtækið hugðist kaupa. Innkaupsverð bíla hefur hækkað um 3 til 5 prósent og allt upp í 35 prósent.