Þota Niceair kemur frá Portúgal

Áhafnir Hifly eru ýmsum aðstæðum vanar en brátt verður áætlunarflug frá Akureyri, á vegum Niceair, hluti af verkefnum portúgalska félagsins. Mynd: Hifly

Jómfrúarferð hins nýstofnaða Niceair frá Akureyrarflugvelli verður farin í byrjun júní en félagið ætlar að halda úti áætlunarferðum þaðan til Evrópu. Til að byrja með verður Niceair ekki með eigið flugrekstrarleyfi því það verður á vegum portúgalska leiguflugfélagsins Hifly, eiganda Airbus þotunnar sem Niceair hefur leigt. Þetta er sambærilegt fyrirkomulag og var hjá Iceland Express.

Áhafnir Niceair munu samanstanda af bæði Íslendingum og áhöfnum frá Hifly í Portúgal að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Niceair.

Hifly er umsvifamikið í leiguflugi víða um heim en í flota þess eru sextán Airbus þotur. Flest allt breiðþotur en líka minni þotur eins og Niceair mun notast við.

Verkefni Hifly eru af ólíkum toga eins og einkennir rekstur margra leiguflugfélaga. Nýverið var félagið til að mynda það fyrsta til að lenda Airbus A340 breiðþotu á Suðurskautinu. En Loftleiðir, dótturfélag Icelandair Group, flaug líka þotu þangað í byrjun síðasta árs.