Tíðar ferðir út í heim frá Akureyri

Flugvél Niceair
Með áætlunarferðum Niceair frá Akureyrarflugvelli geta íbúar á svæðinu flogið beint úr heimabyggð út í heim í stað þess að koma sér fyrst til Keflavíkurflugvallar. Evrópskir ferðamenn komast að sama skapi styttri leið norður en nú er í boði. Tölvuteikning: Niceair

Frá og með byrjun júní nk. mun 150 sæta Airbus þota fljúga reglulega frá Akureyrarflugvelli til áfangastaða í Danmörku, Spáni og Bretlandi. Ferðirnar verða vegum Niceair, nýs félags um millilandaflug frá höfuðstað Norðurlands.

„Forsendur fyrir flugi til og frá Akureyri hafa breyst verulega frá því sem áður var en stofnun Niceair kemur í kjölfar tveggja ára rannsóknarvinnu í samvinnu við erlenda og innlenda aðila. Ætlun félagsins er að festa í sessi áætlunarflug til erlendra áfangastaða frá Akureyrarflugvelli allt árið um kring. Þetta mun í senn bæta lífsskilyrði einstaklinga á svæðinu, bæta aðgengi erlendra ferðamanna að Norðurlandi og síðast en ekki síst stóreykst samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu“, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að reikna megi með að tuttugu störf skapist á Akureyri í tengslum við starfsemi Niceair en áhafnir félagsins verða bæði innlendar og erlendar. Fyrst um sinn verður fyrirtækið ekki sjálft með flugrekstrarleyfi heldur verður það á vegum eiganda flugvélarinnar. Það er sambærilegt fyrirkomulag og Iceland Express var með á sínum tíma.

„Við erum vel fjármagnað félag með öfluga bakhjarla. Það er sérstaklega ánægjulegt hversu fjölbreytt breiðsíða fyrirtækja, einstaklinga og stofnana á Norðurlandi hefur flykkt sér að baki félaginu en KEA, Höldur, Kaldbakur, Norlandair, Armar, Ferðaskrifstofa Akureyrar, Norðurböð, brugghúsið Kaldi, kælismiðjan Frost og fleiri félög eru meðal hluthafa,“ segir í tilkynningu og því bætt við að enginn hluthafi eigi meira en átta prósent hlut.

„Við erum gríðarlega ánægð að fá okkar eigið flugfélag á Akureyrarflugvöll. Hér í norðrinu er ört vaxandi borgarsamfélag sem verður að hafa áætlunarflug á milli landa á helstu áfangastaði fyrir fólk og frakt. Það hefur verið sameiginlegt átak hjá mörgum hagaðilum hér fyrir norðan um langt skeið að byggja upp áfangastaðinn og þetta er afar jákvætt og stórt skref sem við sjáum hér stigið“, segir Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri Akureyrarflugvallar.

Áfangastaðir Niceair verða kynntir á næstu vikum og mun sala hefjast strax í kjölfarið á heimasíðu félagsins.