Verður fimmta stærsta flugfélagið

Airbus þota Frontier. Mynd: Frontier

Áform um sameiningu bandarísku lágfargjaldaflugfélaganna Spirit og Frontier voru kynnt fyrr í dag. Ef samruninn verður samþykktur af samkeppnisyfirvöldum vestanhafs þá verður sameinað félag það fimmta umsvifamesta í bandaríska fluggeiranum. Samanlagður floti félaganna telur um 350 Airbus þotur sem fljúga til samanlagt 145 áfangastaða en meginþorri þeirra er í Bandaríkjunum. Hvorugt félagið flýtur til að mynda til Evrópu.

Núverandi hluthafar Frontier fái 51,5 prósent í nýja fyrirtækinu þrátt fyrir að Spirit sé í raun stærra félag í dag. Heildarvirði samrunans er 6,6 milljarðar dollara en sú upphæð jafngildir rúmlega 830 milljörðum króna. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair í dag rétt um 75 milljarðar kr.

Bæði Spirit og Frontier eru með sterka tengingu við Indigo Partners, fjárfestingafélagið sem skoðaði kaup á Wow Air á sínum tíma. Indigo kom Spirit á lappirnar en seldi hlut sinn í félaginu árið 2013 og tók yfir Frontier. Það félag var svo sett á hlutabréfamarkað síðastliðið sumar.

Samkvæmt samantekt Skift þá voru Frontier og Spirit samanlagt með 6,3 prósent af farþegamarkaðnum vestanhafs árið 2019 og umsvifin hafa lítið lækkað í heimsfaraldrinum. Framboð félaganna hefur þannig aðeins dregist saman um tvö prósent síðustu tvö ár. Sætanýtingin er þó vissulega lægri en hún var.