Virði Aeroflot hríðfellur

MYND: AEROFLOT

Frá áramótum hefur hlutabréfavísitala kauphallarinnar í Moskvu fallið um nærri fjórðung. Þar af nam lækkunin í gær um tíund. Í dag hefur vísitalan fallið um nærri fjóra af hundraði en það var í gærkvöld sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skipaði rússneska hernum að fara yfir úkraínsku landamærin.

Hlutabréfin í stærsta flugfélagi Rússa, Aeroflot, hafa fallið svipuðum takti og flest önnur bréf í kauphöllinni í Moskvu. Frá áramótum hefur markaðsvirði flugfélagsins lækkað um 21 prósent en langstærsta hluta þeirrar breytingar má rekja til síðustu tvo viðskiptadaga. Lækkunin í dag og í gær nemur nefnilega nærri sextán prósentum.

Aeroflot heldur ekki úti áætlunarflugi hingað til lands en það gerir aftur á móti flugfélagið S7 sem gerir ráð fyrir vikulegum ferðum til Keflavíkurflugvallar frá Moskvu í sumar. Félagið ætlar að nýta 164 sæta Airbus A320 neo þotur í ferðirnar.