26 ferðir til Mallorca í sumar

Strendur Mallorca hafa lengi laðað til sín íslenska ferðalanga þó framboð á ferðum þangað sé nú töluvert minna en til Tenerife. Mynd: Lindsay Lenard / Unsplash

Þó ferðaskrifstofan Vita hafi tekið úr sölu ferðir sínar til Mallorca í sumar þá verður áfram hægt að komast til spænsku sólareyjunnar í Miðjarðarhafinu í beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli.

Hjá ferðaskrifstofunum Heimsferðum, Úrval-Útsýn, Plúsferðum og Sumarferðum verða í boði vikulegar brottfarir frá 3. júní til 3. ágúst.

Þotur Play munu svo að fljúga til Mallorca alla miðvikudaga frá 1. júní og fram til 14. september. Ferðaskrifstofan Aventura nýtir þær ferðir til að fljúga sínum viðskiptavinum til Mallorca.

Í heildina verða því í boði 26 ferðir frá Íslandi til Mallorca í sumar eða tvær í viku þegar mest lætur. Til samanburðar geta þeir sem ætla að fljúga til Tenerife í sumar valið úr átta brottförum í viku frá Keflavíkurflugvelli og ein til tvær ferðir frá Akureyrarflugvelli með hinu nýstofnaða Niceair.

En líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá ákváðu stjórnendur Vita að fjölga sætunum til Tenerife i sumar á kostnað ferðanna til Mallorca.