35 ferðir á dag út á Keflavíkurflugvöll

Flugrútan hefur keyrt milli BSÍ og Keflavíkurflugvallar frá 1979. Mynd: Kynnisferðir

Það hafa þrjú rútufyrirtæki haldið úti tíðum ferðum milli höfuðborgarinnar og Leifsstöðvar síðustu ár en þegar farþegum fækkaði vegna heimsfaraldursins urðu ferðirnar mun færri og á tímabili lágu þær niðri. Nú er dagskráin hins vegar orðin mun þéttari og samtals 35 brottfarir á dag í boði frá höfuðborginni.

En í síðustu viku fjölgaði ferðum Flugrútu Kynnisferða upp í tólf á dag. Fyrsta brottför er núna klukkan hálf fjögur á nóttunni og farþegarnir Play ná þá í tíma út á Keflavíkurflugvöll.

Þeir sem vilja vera komnir ennþá fyrr í innritunina geta nýtt sér fyrstu ferð Airport Direct sem fer frá Skógarhlíð klukkan þrjú. Aftur á móti bíður Airport Express, sem er á vegum Gray Line, til hálf fimm með sína fyrstu ferð.

Þar kostar stakur miði frá Reykjavík 2.997 krónur á meðan farið með Airport Direct er á 2.990 kr. Borga þarf 3.499 fyrir sætið hjá Flugrútunni en 6.499 ef báðar leiðir eru bókaðar í einu.