Boða ráðdeild í rekstri og eldsneytisgjald

Mynd: London Stansted

Play tapaði 22,5 milljónum dollara í fyrra sem jafngildir um 2,8 milljörðum króna miðað við meðalgengi dollara árinu. Fyrir skatt var tapið 3,6 milljarðar kr. Afkoman var helmingi verri en lagt var upp í kynningu á hlutafjárútboði félagsins í júní í fyrra. Þar var umframeftirspurnin eftir hlutabréfum í hinu nýja flugfélagi áttföld. Um 4,3 milljarðar króna söfnuðust í útboðinu en stuttu áður hafði Play fengið inn um sex milljarða króna í lokuðu útboði.

Meginkýringin á verri afkomu liggur í tekjuhliðinni því farþegahópur Play var mun fámennari en vonast var til. Af þeim sökum voru tekjurnar um helmingi lægri en upphaflega var reiknað. Forsvarsfólk Play hefur áður vísað til þess að markaðsaðstæður hafi verið erfiðar í fyrra vegna heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem þá voru í gildi.

Falla frá áformum um olíuvarnir

Núna er það afleiðingar innrásar Rússa á Úkraínu sem valda búsifjum. Kostnaðurinn hefur nefnilega aukist í takt við hækkandi olíuverð. Stjórnendur Play gera ráð fyrir að sú verðbreyting muni kosta félagið aukalega um tíu milljónir dollara í ár en það jafngildir um 1,3 milljörðum kr. á gengi dagsins. Hins vegar hefur verið fallið frá áformum um að festa hluta af olíuverðsins fram í tímann, öfugt við það sem boðað var í síðustu viku.

Útíbú í Litháen til að lækka kostnað

Fyrrnefndri hækkun á olíu verður mætt með aukinni ráðdeild í kostnaði og tilkomu sérstaks olíugjalds ofan á miðaverð að því segir í tilkynningu frá Play. Ekki kemur þar fram hversu hátt gjaldið verður en til samanburðar er eldsneytisálagið 4.600 krónur hjá Icelandair þegar flogið er til Evrópu en 8.100 kr. ef flogið er til Norður-Ameríku. Álagið var mun hærra þegar olíuverðið var síðast álíka hátt og það er í dag.

Í tilkynningu Play er ekki nefnt hvernig aðhald í rekstrinum mun kom fram en stjórnendur flugfélagsins boðuðu opnun útibús í Vilnius í Litháen í árslok í fyrra. Tilgangurinn með því var meðal annars að ná fram lægri kostnaði. Gera má ráð fyrir að forsvarsfólk Play fjalli um stöðuna á því verkefni á afkomufundi með fjárfestum nú klukkan hálf níu. Túristi mun fjalla um niðurstöður þess fundar síðar í dag.

Engin áform um hlutafjáraukningu

Þrátt fyrir áframhaldandi krefjandi rekstrarumhverfi þá gerir Play ráð fyrir rekstrarahagnaði á seinni helmingi þessa árs þegar tengiflug félagsins hefst enda hafi bókanir aukist verulega með tilkomu þess. „Engin áform eru því uppi um hlutafjáraukningu enda er lausafjárstaða félagsins sterk, bókunarstaðan góð og fyrirtækið ber engar vaxtaberandi skuldir,“ að því segir í tilkynningu.

Samkvæmt útboðsgögnum Play í júní í fyrra var gert ráð fyrir að rekstrarafkoman árið 2022 yrði jákvæð um 1,4 milljarða króna og hagnaður eftir skatt myndi nema hálfum milljarði kr.