Bóka mest innanlandsflug

Mynd: American Airlines

Stjórnendum flugfélaga er tíðrætt um mikla uppsafnaða eftirspurn eftir ferðalögum nú þegar Covid-19 faraldurinn er víða í rénun. Og ljóst er að viðskiptavinir American Airlines eru duglegir við að bóka ferðalög þessa dagana því í annarri viku marsmánaðar voru þrír metdagar þegar horft er til sölutekna.

Þetta kom fram í kveðjubréfi sem fráfarandi forstjóri flugfélagsins sendi á starfsmenn þann 16. mars sl. Þar benti hann á að þessi mikla sala væri sérstaklega áhugaverð í ljósi þriggja þátta.

Í fyrsta lagi væri framboðið hjá American Airlines minna í dag en það var árið 2019. Í öðru lagi væru flestir að bóka innanlandsflug sem er almennt ódýrara en alþjóðaflug. Í síðasta lagi væri svo hlutfallslega mun færri að bóka vinnuferðir en áður tíðkaðist.

Þetta kemur fram á vefsíðunni View From the Wing en þar er jafnframt bent á að stuttu fyrir heimsfaraldur, nánar tiltekið í janúar árið 2020, hafi American Airlines sett met í sölu á netinu með því að koma út farmiðum fyrir 63 milljónir dollara á einum degi. Sú upphæð jafngildir 8,2 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Líkt og Túristi fjallaði um nýverið þá þurfti American Airlines að draga verulega úr áformum sínum um alþjóðaflug í ár vegna endurtekinna tafa á afhendingu Boeing Dreamliner flugvéla.