Eingöngu grímur í Íslandsflugi Easyjet frá Edinborg

Farþegar í ferðum Easyjet get nú sleppt grímunum en þó ekki í öllum tilvikum. Mynd: Easyjet

Nú þurfa þeir sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli til London eða Manchester með Easyjet ekki lengur að vera með grímur í flugferðinni. Þetta kemur fram á heimasíðu flugfélagsins. Þar er jafnframt bent á að farþegar geti áfram notað grímur ef þeir kjósa.

Easyjet heldur líka úti ferðum hingað frá Edinborg en þeir sem nýta sér þær verða aftur á móti áfram að nota grímur. Hins vegar gerir Icelandair ekki kröfu um slíkt í sínu flugi frá Skotlandi, nánar tiltekið frá Glasgow. Farþegar þess félags geta nefnilega flogið grímulausir nema ferðinni sé heitið til Sviss, Frakklands, Bandaríkjanna eða Kanada.

Fyrir helgi felldi Play einnig niður kröfuna í sínum ferðum um grímunotkun en þar á bæ er gerð undantekning þegar flogið er til Frakklands eða Þýskalands.

Það er því ekki fullt samræmi á milli félaganna um hvenær farþegar geta sleppt grímum og hvenær ekki.