Einkaþoturnar streyma frá Moskvu

Mynd: Yaroslav Muzychenko / Unsplash

Þó lúxussnekkjur rússneskra auðjöfra og ólígarka hafi verið kyrrsettar víða í Evrópu þá halda þeir ennþá lyklunum að einkaþotunum sínum. Og þær nýta þeir þessa dagana til að fljúga frá Moskvu og stefnan þá ósjaldan tekin á Dubaí eins og einn notandi Twitter bendir á og vísar í upplýsingar af vef Flightradar.

Þeir íbúar Rússlands sem ekki hafa aðgang að einkaþotu en vilja komast úr landi hafa ekki marga valkosti því alþjóðaflug frá rússneskum flugvöllum liggur að mestu niðri. Það er þó áfram hægt að fljúga til Serbíu, Tyrklands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna og bókanir í þessar ferðir hafa margfaldast síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst samkvæmt samantekt greiningafyrirtækisins Forwardkeys.

Farþegarnir halda svo áfram ferð sinni frá þessum löndum og út í heim. Frá Tyrklandi halda flestir til Þýskalands, Ítalíu, Bretlands, Spánar eða Grikklands. Þeir sem millilenda í Serbíu halda för sinni áfram til Svartfjallalands, Kýpur, Frakklands, Sviss og Ítalíu. Aftur á móti er ferðinni oftast haldið til Kýpur, Þýskalands, Bretlands, Ítalíu og Frakklands eftir stutt stopp á flugvöllum Sameinuðu arabísku furstadæmanna.