Ekki lengur hægt að bóka Íslandsflug frá Moskvu

Frá Moskvu. Mynd: Alexander Smagin / Unsplash

Flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands hafa lengi verið takmarkaðar en nú í sumar hafði S7, næststærsta flugfélag Rússlands, áform um að taka upp þráðinn í flugi til Keflavíkurflugvallar frá Moskvu. Félagið flaug þessa leið síðast sumarið 2019.

Vegna heimsfaraldursins hafa ferðirnar legið niðri síðustu tvö sumur og nú er útlit fyrir að ekkert verði heldur af þeim í sumar. Og reyndar er allt alþjóðaflug félagsins í uppnámi því á föstudag ákváðu stjórnendur þess að setja flugáætlunin á ís.

Eins og gefur að skilja liggur skýringin á þeirri ákvörðun í innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingum hennar, meðal annars þeirri staðreynd að lofthelgi flestra Evrópulanda er nú lokuð fyrir rússnesk flugfélög. Þotur S7 komast því ekki út í heim og ekki heldur hingað til lands eins og staðan er núna.