Eldsneytisgjald Play komið inn

Eldsneytisgjaldið er merkt sem „Önnur gjöld" í bókunarvél Play. Til vinstri er dæmi um hvert gjaldið er þegar flogið er til Orlando og hægra megin er Kaupmannahafnarflug.

Þær hækkanir sem orðið hafa á olíu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu munu kosta Play um 1,3 milljarða króna að mati stjórnenda félagsins. Af þeim sökum hefur félagið tekið upp sérstakt eldsneytisálag sem bætist við farmiðaverðið frá og með deginum í dag.

Gjaldið nemur á bilinu 1.300 til 2.200 krónur þegar flogið er frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu eða Norður-Ameríku. Á heimleiðinni er álagið reiknað í evrum og dollara og verður þá í mesta lagi um 4.500 krónur. Í bókunarvél Play er hið nýja eldsneytisálag merkt sem „Önnur gjöld“ eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Hjá Icelandair hefur lengi tíðkast að eyrnamerkja hluta af farmiðaverðinu sem eldsneytisálag. Það nemur 4.600 krónum í Evrópuflug en 8.100 ef ferðinni er heitið vestur um haf.

Það má þó segja að þessi gjaldtaka sé ákveðinn leikur að tölum hjá stjórnendum flugfélaganna því álaginu koma þeir ekki út í verðlagið nema horfa til þess hvað keppinautarnir gera. Og til marks um það þá má núna finna ódýrari farmiða með Play til London í júní en voru á boðstólum fyrir helgi.