Samfélagsmiðlar

En hvað með skattsporið hans Skúla?

Rekstur íslenskra flugfélaga skapar þjóðarbúinu miklar tekjur líkt og forsvarsmenn þeirra hafa vísað til þegar á brattann er að sækja.

Gjaldeyristekjur af farþegum Wow Air, flugfélags Skúla Mogensen, námu um 120 milljörðum króna árið 2018 samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir flugfélagið.

Icelandair Group var það fyrirtæki sem fékk langhæstu styrkina frá hinu opinbera vegna áhrifa heimsfaraldursins. Ríkið lagði flugfélaginu til um fimm milljarða króna í tengslum við hlutabótaleiðina og eins í uppsagnarstyrki.

Á ræðu sinni á aðalfundi Icelandair á fimmtudag, sem send var fjölmiðlum sama dag, fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins, að ríkið hefði fengið upphæðina fimmfalt til baka því svokallað skattspor félagsins hafi numið 26 milljörðum króna síðustu tvö ár.

Með þessu var ætlun forstjórans að svara fyrir þá umræðu sem „skotið hef­ur upp koll­in­um“ um nýt­ingu Icelandair á úrræðum rík­is­ins eins og það er orðað í frétt Mbl.is um ræðuna. Sú grein er skrifuð af nýráðnum ritstjóra viðskiptafrétta Morgunblaðsins sem síðustu ár hefur verið ráðgjafi Icelandair í almannatengslum og þar með á lista Fjármálaeftirlitsins yfir innherja í flugfélaginu.

Stefna á hagnað í ár

Útreikningar á skattspori Icelandair byggja á öllum greiddum sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga og þar með talinn skattur af launum starfsmanna. Ríkissjóður fær þó engar skatttekjur af afkomu Icelandair því flugfélagið tapaði þrettán milljörðum króna í fyrra. Þetta var fjórða tapárið í röð en stjórnendur félagsins stefna á jákvæða afkomu í ár. Sú spá var gefin út áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst sem valdið hefur ennþá hærra olíuverði og eins gæti eftirspurn eftir Evrópureisum í Bandaríkjunum dregist saman vegna ástandsins.

Óbeinu áhrifin á pari við Wow Air

Í ræðu sinni á aðalfundinum á fimmtudag sagði forstjóri Icelandair að auk skattsporsins fyrrnefnda þá hefðu jákvæð óbein áhrif af starfsemi flugfélagsins verið gríðarleg. Þannig hafi þeir 350 þúsund ferðamenn sem flugu með Icelandair í fyrra keypt vörur og þjónustu hér á landi fyrir um 85 milljarða króna.

Sú upphæð er sjö milljörðum lægri en farþegar Wow Air eyddu hér á landi árið 2018 samkvæmt útreikningi sem Reykjavík Economics vann fyrir flugfélagið í árbyrjun 2019 þegar falast var eftir opinberum stuðningi við reksturinn.

Ríkisstjórnin varð ekki við þeirri beiðni en ef rökstuðningi forstjóra Icelandair fyrir ríkisstuðningi væri beitt þá má segja að það hefði borgað sig fyrir ráðamenn að rétta flugfélagi Skúla Mogensen hjálparhönd.

Skattspor Wow Air árið 2019 hefði nefnilega líka geta hlaupið á tugum milljarða árið 2019 og ekki síst í ljósi þess að það ár var Icelandair vængbrotið vegna kyrrsetningar Boeing Max þotanna. Samkeppnin við Wow Air hefði því getað reynst Icelandair mjög erfið við þær aðstæður.

Almenn úrræði en sérsniðin

Til að geta allrar sanngirni þá stóðu úrræðin sem Icelandair nýtti sér í heimsfaraldrinum almenn en ekki sértæk eins og sú aðstoð sem Wow Air leitaði eftir. Aðstoðin sem ríkið bauð atvinnulífinu vegna Covid-19 voru þó sniðin að töluverðu leyti að þörfum Icelandair og á það sérstaklega við um uppsagnarstyrkina.

Alþingi samþykkti þó að veita Icelandair sérstaka ríkisábyrgð á allt að sextán milljarða króna láni. Það vilyrði nýttu stjórnendur Icelandair sér ekki og afsöluðu sér ábyrgðinni á sama tíma og nýtt kaupréttakerfi fyrir yfirmenn og sérvalda starfsmenn flugfélagsins var kynnt í síðasta mánuði.

Besta fjárfestingin fyrir alla nema Skúla

Í fyrrnefndri skýrslu Reykjavík Economics eru engir útreikningar á svokölluðu skattspori en þar segir að gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af farþegum Wow Air hafi numið 120 milljörðum króna árið 2018 og reyndar líka árið áður. Það er meira en allur sá gjaldeyrir sem áliðnaðurinn skilaði inn í íslenskan efnahag á sama tíma líkt og Egill Almar Ágústsson, fyrrum forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og Wow Air, benti á í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í fyrra.

Þar kemst Egill meðal annars að þeirri niðurstöðu að þeir fjórir milljarðara króna sem Skúli Mogensen fjárfesti í Wow Air hafi líklega verið besta fjárfesting Íslandssögunnar fyrir alla nema Skúla sjálfan því flugfélagið endaði í gjaldþroti.

Egill bendir nefnilega á að hagsmunir íslensks samfélags af rekstri flugfélaga séu miklu meiri en hagsmunir eigendanna sjálfra. Og það er kannski það sem forstjóri Icelandair var að reyna að benda á með útreikningum sínum á skattspori Icelandair síðustu tvö ár.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …