Farþegar áfram skyldaðir til að nota grímur

Mynd: Delta

Allir þeir sem ferðast með lestum, rútum og flugvélum innan Bandaríkjanna þurfa að vera með grímur. Það á einnig við um þá sem nýta sér flugferðir til og frá bandarískum flugvöllum. Gildistími þessarar reglu rennur út í lok næstu viku en nú hefur ríkisstjórn landsins ákveðið að framlengja hana um einn mánuð í viðbót. Frá þessu greindu bandarísk sóttvarnaryfirvöld fyrr í dag.

Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart samkvæmt frétt Wall Street Journal. Þar vísað til þess að fjöldi hagsmunasamtaka hafa opinberlega lýst yfir stuðningi við áframhaldandi grímuskyldu. Þar á meðal eru samtök flugfreyja og -þjóna vestanhafs.

Á sama tíma og fólk þarf áfram að setja upp grímur í almenningssamgöngum og flugi vestanhafs þá hafa öll ríki Bandaríkjanna lagt niður grímuskyldu innanhúss eða boðað breytingar á þeirri reglu.