Fleiri í vinnuferðir en færri en áður

Eftirspurn hefðbundinna farþega hefur tekið mun fyrr við sér en meðal þeirra sem ferðast mikið vegna vinnu. Mynd: Gerrie van der Walt / Unsplash

Verðmætasti kúnnahópur margra flugfélaga eru farþegarnir sem ferðast vegna vinnu og borga oft margfalt verð fyrir að sitja fremst í þotunum. Þetta á sérstaklega við um flugfélögin sem gera út á lengri flugferðir milli heimsálfa. 

Í heimsfaraldrinum hafa hefðbundnar vinnuferðir hins vegar legið niðri því víða fámennt á skrifstofum og eins hefur ráðstefnuhald legið að niðri.

Nú eru aftur á móti teikn á lofti um að fólk sé ferðast mun meira vegna vinnu en verið hefur síðustu misseri. Sérstaklega á þetta við starfsfólk minni og meðalstórra fyrirtækja samkvæmt frétt Wall Street Journal

Viðmælendur viðskiptablaðsins reikna þó ekki með að vinnuferðir verði fljótt á ný eins tíðar og þær voru fyrir Covid-19. Hækkandi fargjöld sem rekja má til hærra olíuverðs muni til að mynda draga úr ferðalögum tengdum vinnu á næstunni.

Hin mikla þjálfun sem fólk hefur fengið í notkun fjarfundabúnaðar í heimsfaraldrinum er þó líklega helsta ástæða þess að stuttar fundarferðir verða fátíðari hér eftir. Mörg fyrirtæki horfa líka til þess að fækka  ferðum starfsfólks til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar. Það á til að mynda við um hjá Össuri, einu stærsta útflutningsfyrirtæki landsins.