Forstjórinn fyrrverandi sest í flugstjórasætið

Arnar Már Magnússon, fyrrum forstjóri Play. Mynd: Play

Arnar Már Magnússon, einn af stofnendum Play og fyrrum forstjóri, hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Play. Við starfi hans tekur Guðni Ingólfsson sem hefur reynslu frá bæði Icelandair og Wow Air.

Arnar Már lætur þó ekki skilið við Play því hann mun setjast í flugstjórasætið og fara að fljúga þotum félagsins. Arnar var flugstjóri hjá Wow Air á sínum tíma og hefur einnig unnið fyrir Ryanair sem slíkur.

„Ég lít svo á að tilgangi mínum við að koma Play í loftið sé lokið og ætla nú að sinna því sem mér finnst skemmtilegast en það er að fljúga með farþega okkar á vit ævintýranna. Ég veit að flugrekstrarsvið Play er í frábærum höndum hjá Guðna og óska honum alls hins besta,” segir Arnar Már.

Auk Arnars Más þá komu þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, Þóroddur Ari Þóroddson og Bogi Guðmundsson að stofnun Play. Þeir tveir síðarnefndu hættu afskiptum af félaginu löngu áður en félagið hóf flugrekstur síðastliðið sumar.