Forstjórinn með laun á við 169 starfsmenn

Boeing flugvélaframleiðandinn tapaði 4,2 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári en sú upphæð jafngildir 556 milljörðum íslenskra króna. Til viðbótar við þetta gríðarlega tap þá á Boeing í miklum vandræðum með reksturinn. Þannig gengur félaginu hægt að koma nýjum Boeing Dreamliner þotum til viðskiptavina. American Airlines hefur af þeim sökum þurft að skera niður áætluna sína fyrir komandi sumar.

Eftirmálar hinna alvarlegu galla á Max þotunum setja líka svip á afkomu Boeing því skaðabæturnar sem greiða þarf flugfélögum eru háar.

Þetta ástand endurspeglast þó ekki í launaseðlum stjórnenda flugvélaframleiðandans því forstjórinn sjálfur fékk 980 milljónir króna í árslaun í fyrra. Auk þess fékk hann úthlutað hlutabréfum og kauprétti sem gætu þrefaldað kjörin samkvæmt úttekt Seattle Times.

Vestanhafs ber fyrirtækjum að tilgreina hversu margfalt meira forstjórinn fær borgað en aðrir og samkvæmt útreikningum Boeing þá jöfnuðust árslaun forstjórans í fyrra á laun við laun 169 starfsmanna.

Laun annarra framkvæmdastjóra Boeing nema líka milljónum dollara á ári, þannig fékk framkvæmdastjóri flugvélaframleiðslunnar sjálfrar 5,7 milljónir dollara í laun í fyrra. Það jafngildir 755 milljónum á gengi dagsins í dag.