Gæti hækkað ennþá meira í sumar

Það er ekki útlit fyrir að olíuverð lækki í bráð að mati sérfræðinga Morgan Stanley. Fleiri gætu því valið sér farkosti sem ekki eru bensíndrifnir. Mynd: Shell International Ltd.

Þó verð á olíu hafi lækkað um 15 prósent síðustu tíu daga daga þá nemur hækkun ársins 38 prósentum. Fat af Norðursjávarolíu kostar nú í morgunsárið 109 dollara en var á 64 dollara fyrir ári síðan. Leita þarf aftur til sumarsins árið 2008 til að finna álíka hátt verð og nú er.

Engu síður telja sérfræðingar bandaríska stórbankans Morgan Stanley vera innistæðu fyrir enn meiri hækkunum á næstunni. Sérstaklega nú í sumar þegar eftirspurn eykst á sama tíma og olíubirgðar eru litlar. Á þriðja ársfjórðungi reiknar Morgan Stanley því með að fat af Norðursjávarolíu muni kosta að jafnaði 120 dollara. Það yrði hækkun um tíu dollara frá þeim ársfjórðungi sem senn er á enda og fjórðungs hækkun í samanburði við tímabilið október til desember í fyrra.

Eldsneyti á bíla og flugvélar hefur hækkað í sama takti og hráolían og nú reyna flugfélög að koma verðbreytingunum út í verðlagið í auknum mæli. Á mánudaginn bætist til að mynda sérstakt eldsneytisálag við fargjöld Play. Hversu há upphæðin verður er ekki opinbert.