Hætta við flug til Stuttgart 

Ekkert verður af áætlunarferðum Play til þýsku borgarinnar Stuttgart í sumar. Fyrsta ferð var á dagskrá í byrjun júní og ætlunin var að fljúga héðan tvisvar í viku, seinni part dags. Það var því ekki horft til þess að tengifarþegar á leið til Bandaríkjanna myndu nýta sér ferðirnar heldur eingöngu Íslendingar og ferðamenn á leið til landsins.

Nú hefur Play hins vegar tekið flugið til Stuttgart úr sölu og að sögn Nadine Guðrúnar Yaghi, samskiptastjóra Play, þá er ástæðan sú að eftirspurnin meðal Þjóðverja var ekki nægjanleg.

Í stað ferðanna til Stuttgart þá mun Play fjölga brottförum til Parísar og Spánar. Nadine bendir á að eftirspurn eftir ferðum Play til og frá París sé góð og áhugi Íslendinga á ferðum til Spánar mikill.

Þjóðverjar svartsýnni á stöðu mála

Væntingar þýskra neytenda varðandi framtíðina mælast í dag mun lægri en þær voru í ársbyrjun og hafa ekki verið eins litlar síðan í janúar 2009 líkt og Túristi greindi frá í fyrradag. En Þjóðverjar eru stór hluti þeirra ferðamanna sem heimækja Ísland yfir sumarmánuðina.

Yfir sumarmánuðina þrjá árið 2019 innrituðu 57 þúsund þýskir farþegar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Þeir voru álíka margir sumarið 2018 en aftur á móti miklu fleiri sumarið 2017 eða 75 þúsund.

Samdrátturinn á þessum tíma skrifast helst á tvo þætti, styrkingu krónunnar og minna framboði á flugi milli Íslands og Þýskalands. Þar vegur þungt gjaldþrot Airberlin haustið 2017 en það félag var stórtækt í Íslandsflug frá nokkrum þýskum borgum.

Þar á meðal frá Stuttgart en frá falli Airberlin hefur ekkert áætlunarflug verið í boði þaðan til Íslands. Og nú liggur fyrir að Play mun ekki koma þeim samgöngum á að nýju. Alla vega ekki nú í sumar.