Helmingur ferða á eyðslugrennri flugvélum

Í sumar verða fjórtán Boeing Max þotur í flota Icelanair. Mynd: Berlin Airport

Kostnaður við kaup á þotueldsneyti vegur sífellt þyngra í rekstri flugfélaga enda hefur verð á olíu hækkað hratt eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst. En áður en stríðið hófst var olíutunnan reyndar dýrari en hún hafði verið í mörg ár og verðið mun hærra en áætlanir íslensku flugfélaganna gerðu ráð fyrir.

Í gær lækkaði verð á olíu um þrettán af hundraði eftir að ráðamenn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum gáfu út að þeir ætluðu að beita sér fyrir því að OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, myndu auka framleiðsluna.

Nú í byrjun dags hefur verðið hækkað lítillega á ný og kostar tunna af Norðursjávarolíu 113 bandaríkjardollara. Til samanburðar fór verðið upp í 129 dollara á mánudaginn.

Það verður því ódýrara fyrir Icelandair að setja eldsneyti á þotur sínar fyrir ferðir dagsins en félagið nýtir nú í auknum mæli minni en sparneyttari Boeing Max þotur. Þannig verða Max þotur nýttar í sex af ellefu áætlunarferðir Icelandair nú í morgunsárið samkvæmt vef Flightradar.

Líkt og Túristi greindi frá í gær telur forstjóri Play að miklar hækkanir á eldsneyti að undanförnu muni leita út í verðlagið. Þrátt fyrir mikla samkeppni meðal flugfélaga nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun.