Íslandsflugið frá Moskvu er ennþá á dagskrá

S7 er stærsta einkarekna flugfélagið í Rússlandi. Mynd: S7

Rússneska flugfélagið S7, áður Siberia Airliens, hóf áætlunarflug hingað til lands frá Domodedovo flugvelli í Moskvu sumarið 2018. Þá var ein brottför í viku í boði en sumarið eftir flugu þotur félagsins hingað tvisvar í viku. Vegna heimsfaraldurins hefur Íslandsflug S7 legið niðri síðustu tvö sumar en félagið gerir ráð fyrir að taka upp þráðinn að nýju þann 4. júní.

Þau áform hafa ennþá ekki breyst en allt alþjóðaflug, til og frá Rússlandi, er nú í lausu lofti eftir innrás Rússalands í Úkraínu. Stærsta flugfélag Rússa hefur til að mynda fellt niður allar ferðir til Evrópu eftir að flest ríki álfunnar hafa bannað flug rússneskra flugvéla um lofthelgi sína og það á einnig við um þá íslensku.

Að öllu óbreyttu verður því ekkert af áætlunarflugi hingað frá Moskvu í sumar.