Keflavíkurflugvöllur fær viðurkenningu fyrir þjónustu

Mynd: Isavia

Keflavíkurflugvöllur hefur, ásamt fimm öðrum flugvöllum, verið valinn í hóp með bestu flugvöllum í Evrópu í sínum stærðarflokki hvað varðar þjónustu. Þá er Keflavíkurflugvöllur einnig meðal tuttugu flugvalla í Evrópu sem hljóta sérstaka viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) fyrir hreinlæti á síðasta ári.

„Þjónustukönnun ACI, Airport Service Quality Programme (ASQ), er meðal viðurkenndustu  mælinga sem gerðar eru á þjónustugæðum flugvalla. Farþegar á flugvöllum um allan heim eru spurðir staðlaðra spurninga um þjónustu og upplifun. Samanburðurinn er því samræmdur og umfangsmikill, bæði milli flugvalla og ára,“ segir í tilkynningu frá Isavia.

Þar er því bætt við að Keflavíkurflugvöllur hafi tvö ár í röð hlotið bæði viðurkenningu fyrir þjónustu í sínum stærðarflokki í Evrópu og fyrir hreinlætis- og öryggisaðgerðir í heimsfaraldri.