Kjarabætur fyrir stjórnendur og sérvalda starfsmenn samþykktar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Mynd: Icelandair

Meirihluti þátttakenda á aðalfundi Icelandair í gær samþykkti tillögu stjórnar félagsins um kaupréttakerfi fyrir forstjóra, framkvæmdastjóra og ótilgreinda lykilstarfsmenn. Einn stærsti hlut­hafi félags­ins, líf­eyr­is­sjóð­ur­inn Gildi, hafði greint frá því fyrir fundinn að hann myndi greiða atkvæði gegn til­lög­unn­i. Heimildir Túrista herma að fleiri stórir hluthafar hafi haft efasemdir um kaupréttakerfið.

Engu að síður var tillagan samþykkt og þar með hefur stjórn Icelandair heimild til að úthluta 900 milljónum hluta til framkvæmdastjórnar félagsis og lykilstarfsmanna. Markaðsvirði bréfanna er í dag nærri tveir milljarðar króna en hefur lækkað um fimmtán af hundraði síðan tillagan koma fram fyrir þremur vikum síðan. Lækkunin skrifast á neikvæð áhrif innrás Rússa í Úkraínu á hlutabréfa- og hrávörumarkaði.

Lokagengi hlutabréfa í Icelandair í gær var 1,91 króna á hlut en gengið var 2,25 kr. hlut þegar tillagan var kynnt í síðasta mánuði. Það gengi sem lagt verður til grundvallar þegar kaupréttum verður úthlutað liggur ekki ennþá fyrir samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.

Í hlutabréfaútboði Icelandair haustið 2020 var gengið aftur á móti ein króna á hlut og þá tóku allir framkvæmdastjórar Icelandair og forstjóri þátt. Hlutabréfaviðskipti yfirstjórnarinnar námu samtals 76 milljónum króna í útboðinu en þá sátu átta manns í yfirstjórninni. Framvæmdastjórunum var svo fjölgað um einn í fyrra eftir að þrír aðrir höfðu sagt upp störfum sínum.

Heild­ar­fjöldi stöðugilda hjá Icelanda­ir Group var að meðaltali 4.715 á ár­inu 2019 en heildarfjöldi starfsfólks í fullu starfi hjá Icelandair var 2.400 um síðustu áramót. Fjölgaði þeim um eitt þúsund á nýliðnu ári samkvæmt því sem fram kom í ræðu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á aðalfundi í gær.

Þar sagði hann Icelandair hefði greitt 26 milljarða króna í fyrra í skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga sem sé fimmfalt hærri upphæð en flugfélagið fékk í stuðning frá hinu opinbera í heimsfaraldrinum.

Leiðrétt: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að lokagengi hlutabréfa í Icelandair í gær myndi liggja til grundvallar í kaupréttakerfinu. Sú fullyrðing byggði á skilningi Túrista á kauphallartilkynningu. Hið rétt er hins vegar að stjórn og starfskjaranefnd munu ákvarða þetta atriði. Fréttin hefur því verið leiðrétt.