Kynna tækifæri á Keflavíkurflugvelli

Fundur um útboð á rekstri veitingastaða og verslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fer fram í Hörpu þann 30. mars. Mynd: Isavia

Um helmingur þeirra farþega sem flýgur frá Keflavíkurflugvelli kaupir sér veitingar fyrir brottför og um sextíu prósent kaupir vörur. Og nú er framundan útboð á rekstri tveggja veitingastaða í norðurbyggingu Keflavíkurflugvallar auk gleraugnaverslunar á sömu hæð. 

Í öllum þremur tilvikum er um að ræða rými sem í dag eru nýtt í álíka rekstur. Spurð hvort útboðið nú sé til marks um að núverandi veitingastaðir og verslun njóti ekki nægjanlegra vinsælda þá segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar- og veitinga hjá Isavia, að ástæðurnar séu aðrar. 

„Flugstöðin er að stækka og við erum að horfa til framtíðar og styrkja stöðu Keflavíkurflugvallar í alþjóðlegri samkeppni við aðra flugvelli.  Nú eru mörg tækifæri í mótun hjá okkur og næstu útboð snúa að þessum tveimur veitingastöðum. Við höldum reglulega útboð og þannig stendur að samningar við núverandi veitingaaðila eru að renna út. Reglum samkvæmt bjóðum við út stór ný tækifæri á evrópska efnahagssvæðinu,“ útskýrir Gunnhildur.

Hún bendir jafnframt á að Keflavíkurflugvöllur hafi árið 2019 verið á lista yfir þá tíu evrópska flugvelli þar sem framboð veitinga var best. Þetta sýna niðurstöður kannana sem gerðar hafa verið meðal farþega á Keflavíkurflugvelli og í flugstöðum út í heimi. 

Þær kannanir hafa líka gefið innsýn í hvers konar veitingastaði farþegar hér á landi óska eftir. Og þær upplýsingar voru nýttar við undirbúning útboðsins sem nú er handan við hornið.

„Niðurstaðan var að byrja á þessum tveimur veitingatækifærum þar sem áhersla er lögð á breitt og gott úrval af gæða veitingum, góðri þjónustu og umgjörð. Við viljum að fólk njóti þess að setjast niður á þessum stöðum. Það á að vera sérstök upplifun sem fangar tilfinninguna fyrir Íslandi. Við gerðum einnig víðtæka markaðskönnun meðal veitingafyrirtækja sem leiddi í ljós að þau höfðu meiri áhuga á að reka báða staðina frekar en annan hvorn þeirra svo ákveðið var að bjóða þá út saman. Þeir verða þó ólíkir. Annar staðurinn á að taka allt að 200 manns í sæti og þar verður mikil áhersla á hraða þjónustu og úrval sem hentar breiðum hópi fólks. Hinn staðurinn verður með sæti fyrir allt að 80 manns og þar viljum við að skapist notaleg stemmning og vöruúrvalið tengt við skandinavíska matargerð,“ segir Gunnhildur.

Spurð um dæmi um skandinavíska rétti sem passi vel fyrir farþega á Keflavíkurflugvelli þá segir Gunnhildur að samtöl við farþega leiði í ljós að þeir viljl meira úrval af gæðaréttum framreiddum úr staðbundnu hráefni. 

„Við erum til dæmis að horfa á gæða smörrebröd, úrval góðra vína og þess háttar. Norræn matargerðarlist er meðal þess sem þarna gæti notið sín.“

Sem fyrr segir kaupir um helmingur farþega á Keflavíkurflugvelli sér veitingar fyrir flugferðina og telur Gunnhildur að hægt sé að hækka það hlutfall með því að auka úrvalið og afkastagetuna. Þá styttist biðraðir og þægindin aukist. 

Stór hluti af umferðinni um Keflavíkurflugvöll er árla dags en mun minni um kvöldmatarleytið. Væru matargestirnir ekki mun fleiri ef traffíkin væri meiri á kvöldin? 

„Við vitum að dvalartími farþega er lengri eftir því sem líður á daginn því eðlilega kjósa flestir að geta sofið eins lengi og þeir geta á nóttunni fyrir morgunflugin. Salan á morgnana er samt mjög góð enda flestir búnir að vaka í um það bil tvo klukkutíma áður en þeir koma inn á veitingasvæðið. Orðnir svangir og þyrstir og þriggja til fimm tíma flugferðalag framundan. Það er því mikil spurn eftir breiðu úrvali af morgunmat og eins nesti til að taka með sér í ferðalagið.

Það eru þó ekki bara rekstur veitingastaða sem boðinn verður út núna heldur líka rekstur gleraugnaverslunar. Gunnhildur bendir á að gleraugnabúðir geti verið mismunandi á flugvöllum eftir því hver eftirspurnin er.

„Á Íslandi er eftirspurn eftir sjóngleraugum og Optical, sem reka verslunina í dag, eru að framleiða sjóngleraugu á flugvellinum. Hægt er að koma í mælingu og fá gleraugun afgreidd á stuttum tíma. Jafnframt er mikil eftirspurn eftir sólgleraugum og ýmiss konar íþróttagleraugum eins og skíða- og hjólagleraugum. Þá er líka vinsælt að kaupa linsur og annars konar hliðarvörur,“ segir Gunnhildur að lokum.

Opinn fundur um útboðin verður í Hörpu á morgun miðvikudag klukkan 16 og þurfa áhugasamir að skrá sig á fundinn á heimasíðu Isavia.