Mega taka þoturnar yfir

Þota rússneska flugfélagsins S7 en það stefndi á flug til Íslands frá Moskvu í sumar. Þær ferðir hafa verið teknar úr sölu. Mynd: S7

Um helmingur þeirra farþegaþota sem nýttar eru af rússneskum flugfélögum eru í eigu erlendra flugvélaleiga. Og allt frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hafa eigendur þotanna reynt að fá þær til sín en með litlum árangri.

Nú má gera má ráð fyrir að það verkefni verði ennþá flóknara því í dag undirritaði Vladímir Pútin, forseti Rússlands, ný lög sem heimila þarlendum flugfélögum að eigna sér erlendar flugvélar. Frá þessu greindi rússneska fréttaveitan Tass.

Í heildina voru 515 farþegaþotur í leigu hjá rússneskum flugfélögum áður en stríðið í Úkraínu hófst samkvæmt úttekt Financial Times. Virði flotans var um 10 milljarðar dollara en sú upphæð jafngildir um 1,3 billjónum króna.

Það er írska flugvélaleigan AerCap sem er með mest undir í Rússlandi því 154 þotur í eigu fyrirtækisins eru þar í landi. En þess má geta að þær þrjár þotur sem Play hefur nýtt síðustu mánuði eru allar leigðar af AerCap sem jafnframt er umsvifamesta flugvélaleiga heims.

En þó rússnesk flugfélög geti nú samkvæmt nýju lögunum tekið yfir þoturnar þá gæti það reynst erfitt að sinna almennilegu viðhaldi og kaupa varahluti vegna viðskiptabannsins sem nú ríkir.