Miklu minna tap í fyrra

Herbergi á Fosshótelinu á Fáskrúðsfirði en sú hótelkeðja heyrir undir Íslandshótelin. Mynd: Fosshótel

Íslandshótelin, stærsta hótelfyrirtæki landsins, tapaði 121 milljón króna á síðasta ár. Tapið árið áður nam nærri 2,2 milljörðum króna en þá, líkt og í fyrra, hafði Covid-19 faraldurinn gríðarleg áhrif á rekstur fyrirtækisins.

Um tíma var aðeins eitt af sautján hótelum fyrirtækisins opið gestum. Því til viðbótar voru sóttvarnarhótel rekin í fjórum af hótelum Íslandshótela.

Tekjur hótelfyrirtækisins námu nærri 7,1 milljarði króna í fyrra sem var tvöföldun frá árinu 2020. Til samanburðar voru tekjurnar 11,5 milljarðar árið 2019 og 12,1 milljarður árið 2018 en þau tvö ár var samanlagður hagnaður Íslandshótela rúmlega þrír milljarðar króna.