Munu greiða atkvæði gegn tillögu stjórnar Icelandair

Gildi-lífeyrissjóður mun greiða atkvæði gegn tillögu um bætt starfskjör stjórnenda hjá Icelandair á ársfundi félagsins á morgun. Hinar boðuð kjarabætur eru of umfangsmiklar að mati sjóðsins. Þetta kemur fram í svari Gildis við fyrirspurn Túrista. Gildi er fimmti stærsti hluthafinn í Icelandair með rúmlega þrjú prósent hlut.

Kaupréttakerfið sem stjórn Icelandair hefur lagt til hluthafar samþykki á aðalfundinum gerir ráð fyrir að stjórnendur félagsins, auk sérvaldra starfsmanna, fái að kauprétt á 900 milljónum hlutabréfum í flugfélaginu næstu þrjú ár. Markaðsvirði þessara hlutabréfa er í dag nærri tveir milljarðar króna.

Til viðbótar er ætlunin að halda í bónuskerfi fyrir yfirmenn sem getur hækkað árslaun þeirra um allt að fjórðung en ekki hefur reynt á þetta kerfi síðustu ár því Icelandair hefur verið rekið með tapi allt frá árinu 2018.

Eins og fram kom hér á síðunni í morgun þá setur hópur stórra hlutahafa í Icelandair spurningamerki við hinar boðuðu kjarabætur fyrir stjórnendur flugfélagsins. Ástæðurnar eru meðal annars taprekstur þess fyrir heimsfaraldur, mikill opinber stuðningur síðustu ár og framganga félagsins í kjaramálum áhafna. Einnig hefur verið á það bent að stjórnendur Icelandair gáfu frá sér ríkisábyrgð á lánalínu í sömu andrá og fyrrnefnt kaupréttakerfi fyrir stjórnendur var kynnt fyrir hluthöfum.