Olíuverðið fellur

Það er talsvert ódýrara að fylla þotur af eldsneyti í dag en það var í byrjun síðustu viku. Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Verð á Norðursjávarolíu er nú rétt um 100 bandaríkjadollarar á fatið og hefur lækkað um tíu prósent frá því á föstudag. Skrifa sérfræðingar lækkunina helst á minnkandi eftirspurn Kínverja eftir olíu vegna víðtækra sóttvarnaraðgerða þar í landi til að draga úr útbreiðslu Covid-19.

Þessar verðlækkanir koma flugfélögunum til góða enda vega kaup á þotueldsneyti þungt í rekstri flugfélaganna. Tonn af þotueldsneyti kostar nú í um þúsund dollara og hefur lækkað um fimmtung frá því í byrjun síðustu viku.

Innrás Rússa á Úkraínu og þær viðskiptaþvinganir sem fylgt hafa í kjölfarið eru megin skýringin á hækkunum síðustu vikna. Olíuverðið var reyndar orðið hátt áður en stríðið hófst og um miðjan janúar kostaði þotueldsneyi álíka mikið og árið 2018. Það ár skrifaðist taprekstur Icelandir meðal annars á hátt olíuverð.

Í ár gera stjórnendur félagsins aftur á móti ráð fyrir hagnaði og byggir sú spá á því að félagið greiði að jafnaði 800 dollara fyrir hvert tonn af þotueldsneyti. Sem fyrr segir er verðið núna fjórðungi hærra en Icelandair hefur tryggt sér hluta af olíunotkuninni á lægra verði. Þessar svokölluðu eldsneytisvarnir renna þó út að langmestu leyti þann 1. júlí.

Stjórnendur Play ætla kynna nýgerðan samning um eldsneytiskaup í tengslum við birtingu ársuppgjörs félagsins á morgun.