Sæti fyrir þrettán þúsund ferðamenn í mánuði

Delta hefur flogið milli Íslands og Bandaríkjanna á hverju ári frá 2011, að 2020 undanskildu. Á tímabili hélt félagið úti ferðum hingað allt árið um kring. Mynd: Delta Air Lines

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines tekur upp þráðinn í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna í maí næstkomandi. Fyrsta brottför til JFK flugvallar í New York verður þann 2. maí og fyrsta ferð til Minneapolis-St. Paul 27. maí.

Í maí með verður flogið fimm sinnum í viku til New York og síðan daglega frá byrjun júní. Ferðirnar hingað frá Minneapolis verða líka á boðstólum alla daga vikunnar samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Samtals verða sæti fyrir þrettán þúsund farþega í mánuði í Íslandsflugi Delta en á sumrin eru Bandaríkjamenn fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi.
 
„Það er mikill áhugi hjá bandarískum ferðalöngum á því að koma til Íslands til að upplifa eldfjöllin, jöklana og einstaka náttúruna og sá áhugi endurspeglast líkt og áður í góðum farmiðabókunum. Með fluginu milli Íslands og Bandaríkjanna hlökkum við til að leggja okkar af mörkum til að koma ferðaþjónustunni á strik á alþjóðavísu,“ segir Nicholas Ferri, framkvæmdastjóri Delta í Evrópu, í tilkynningu.

Þotur Delta fljúga frá Keflavíkurflugvelli að morgni dags og því lent í Bandaríkjunum um hádegisbil að staðartíma. Farþegar frá Íslandi geta þannig nýtt sér fjölda tenginga samdægurs frá bæði New York og Minneapolis til áfangastaða í Norður- og Suður-Ameríku.

Auk Delta þá halda Icelandair, Play og United Airlines úti flugi til New York. Farþegar á leið milli Minneapolis og Íslands hafa úr ferðum Delta og Icelandair að velja.