Safna fé fyrir úkraínska gestgjafa

Sýnishorn af gistingu sem hægt er að bóka í Kænugarði næstu daga. Skjámynd af vef Airbnb

Booking og Airbnb, tvær af stærstu gistimiðlunum í heimi, hafa lagt niður starfsemi sína í Rússlandi vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Forstjóri Airbnb tilkynnti um ákvörðunina fyrir helgi og skoraði á sama tíma á fólk að styðja við gestgjafa fyrirtækisins í Úkraínu með því að bóka hjá þeim gistingu þó skiljanlega verði hún aldrei nýtt. Bandaríska fyrirtækið tekur enga þóknun af þessum bókunum.

Fyrir helgi höfðu safnaðst 1,9 milljónir dollara sem jafngildir um 250 milljónum íslenskra króna. Til viðbótar þá skorar Airbnb á gestgjafa í öðrum löndum að hýsa flóttafólk frá Úkraínu.