Segir framtíð félagsins í höndum flugmanna

Þota SAS á flugi við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. Mynd: SAS

Eftir aðeins eins dags viðræður þá gengu flugmenn SAS frá samningaborði í gær. Þar með stefnir í verkfall en flugmenn SAS lögðu síðast niður störf fyrir þremur árum síðan. Það verkfall stóð yfir í viku og kostaði flugfélagið 8,5 milljarða króna

Deilan að þessu sinni snýr bæði að nýjum kjarasamningi og eins boðaðri uppstokkun á flugrekstri SAS. Sú breyting felur í sér að kjarasamningar áhafna verða færðir yfir í ný dótturfélög og um leið gerð krafa um aukið vinnuframlag. Þessi aðgerð er hluti af umsvifamiklum sparnaðaraðgerðum sem kynntar voru í síðasta mánuði.

Marianne Hernæs, fulltrúi SAS í kjaraviðræðunum, lét hafa það eftir sér í fjölmiðlum í gær að þær kröfur sem flugmenn hafi lagt fram séu gríðarlega kostnaðarsamar og óraunhæfar í ljósi stöðunnar. Vísar Hernæs til þess að SAS sé þröngri stöðu eftir langan heimsfaraldur og eins hafi stríðsátökin í Úkraínu valdið miklum hækkunum á eldsneyti. 

„Það mætti segja að flugmennirnir hafi framtíð SAS í höndum sér,” bætti fulltrúi flugfélagsins við í viðtali við norska viðskiptablaðið E24

Formaður félags flugmanna SAS í Noregi segir að bilið milli viðsemjenda sé einfaldlega það mikið að það sé enginn möguleiki að ná saman með hefðbundnum kjaraviðræðum. Formaðurinn bætir því við að það geti varla verið svo að starfsmenn SAS eigi að axla fjárhagslega ábyrgð á afleiðingum heimsfaraldursins á rekstur flugfélagsins.

Þess má geta að SAS heldur úti áætlunarflugi hingað til landa frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn og í sumar bætist við áætlunarflug frá Stokkhólmi.