Telur að róðurinn þyngist hjá keppinautunum

Á aðalskrifstofu Ryanair hrósa þau happi yfir samningum sínum um kaup á þotueldsneyti til næstu 12 mánaða. Mynd: Ryanair

Tunna af olíu kostar núna 128 dollara og hefur verðið ekki verið jafn hátt frá árinu 2008. Þá fór verðið hæst upp í 140 dollara yfir sumarmánuðina en lækkaði svo hratt um haustið í þegar fjármálakreppan hófst.

Stjórnendur Ryanair hafa aftur á móti tryggt sig fyrir hækkununum að töluverðu leyti því félagið hefur samið um að greiða 65 dollara fyrir hverja tunnu af olíu til næstu tólf mánaða. Samningurinn dekkar um 80 prósent af áætlaðri olíuþörf félagsins.

Í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á olíu er í dag nærri tvöfalt hærra en það sem Ryanair þarf að borga þá spáir Michael O´Leary, forstjóri félagsins, því að keppinautar hans muni eiga erfitt með að keppa við fargjöld Ryanair á næstunni. Samkvæmt frétt Financial Times vísaði O´Leary sérstaklega til Wizz Air og þeirrar staðreyndar að það félag hefur ekki verið með neinar olíuvarnir.

Nú í morgunsárið tilkynntu stjórnendur Wizz Air aftur á móti að þeir hefðu fest verð á hluta af olíunotkuninni til næstu fjögurra mánaða.

Easyjet sem einnig veitir Ryanair harða samkeppni í flugi innan Evrópu hefur samið um fast verð á sextíu prósent af sinni olíunotkun fram á haustið.