Þriðji hver gestur íslenskur

Úr sýningunni FlyOver Iceland. MYND: FLYOVER ICELAND

FlyOver Iceland sýningin opnaði haustið 2019 og heimsfaraldurinn hefur því sett svip sinn á fyrstu tvær sumarvertíðirnar þar á bæ. Eva Eiríksdóttir, markaðstjóri FlyOver Iceland, segir því spenning fyrir komandi sumri og bókunarstöðuna ágæta miðað við fyrri ár. Hún bendir þó á að almennt berist pantanir með stuttum fyrirvara þegar kemur að afþreyingu eins og FlyOver Iceland býður upp á.

Fyrstu þrjá mánuði hvers árs eru Bretar vanalega fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og segir Eva að breski markaðurinn hafi tekið hraustlega við sér eftir áramót. Á tímabili voru bresku gestirnir því fleiri en þeir bandarísku en þeir eru vanalega þeir fjölmennustu hjá FlyOver Iceland. Hlutfall Íslendinga er um þriðjungur enda er lögð áhersla á að ná til heimamanna í markaðssetningu á sýningunni sem FlyOver býður upp á við Fiskislóð.

Það er þó hægt að sjá sýninguna víðar því hún hefur verið á dagskrá í Las Vegas í Bandaríkjunum og Vancouver í Kanada. Einnig verður hún tekin til sýninga í Chicago á næstunni, nánar tiltekið við Navy Pier höfnina