Þýskir neytendur svartsýnni en áður

Væntingar Þjóðverjar um auknar ráðstöfunartekjur hafa ekki mælst lægri í meira en áratug. Mynd: Dagmar Schwelle / Visit Berlin

Þjóðverjar hafa lengi verið fjölmennir í hópi ferðamanna hér á landi og þeir gefa sér oftar en ekki lengri tíma í Íslandsreisuna en aðrar þjóðir. Framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands er líka umtalsvert allt árið um kring.

Það má því gera ráð fyrir að ófáir Þjóðverjar séu að velta fyrir sér ferðalagi hingað til lands þessi misserin. En í ljósi aðstæðna þá gætu fleiri en áður ákveðið að bíða átekta því niðurstöður kannana í Þýskalandi sýna að neytendur þar í landi eru svartsýnni nú en oft áður.

Væntingavísitala þýskra neytenda hefur nefnilega lækkað umtalsvert að undanförnu og mælist nú í mínus 15,5 prósentum í samanburði við mínus 8,5 prósent í mars. Þetta sýna kannanir rannsóknarfyrirtækisins GfK.

Vonir stóðu til að þýska hagkerfið færi á fleygiferð nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun en innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingar hennar hafa hins vegar breytt stöðunni. Vísitalan sem mælir væntingar Þjóðverja um auknar tekjur hefur til að mynda fallið um 25 prósentustig og ekki mælst lægri síðan í janúar árið 2009.

Aukin verðbólga veldur einnig óróa meðal þýskra neytenda og eins áhrif hækkandi orkuverðs á kaupgetu þeirra samkvæmt því sem segir í niðurstöðum GfK.