Til Feneyja fyrir fimmtán hundruð krónur

Það er hægt að komast fyrir lítið til ítölsku borgarinnar nú í vor.

Frá Feneyjum, Mynd: Canmandawe / Unsplash

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air heldur úti reglulegu flugi hingað frá þremur ítölskum borgum og í lok mánaðar bætist sú fjórða við. En þá er á dagskrá jómfrúarferðin frá Feneyjum til Keflavíkurflugvallar. Wizz Air verður þar með fyrsta flugfélagið til að spreyta sig á áætlunarflugi milli Íslands og einnar vinsælustu ferðamannaborgar Ítalíu.

Flugáætlunin gerir ráð fyrir brottförum á þriðjudags- og laugardagskvöldum frá Keflavíkurflugvelli og því verður lent á Marco Polo flugvelli klukkan þrjú um nótt. Þetta eru því ekki fyrsta flokks flugtímar en af fargjöldunum að dæma þá hafa ófáir tryggt sér sæti í Feneyjarflug Wizz Air í sumar.

Aftur á móti eru farmiðarnir ennþá í ódýrari kantinum nú í vetrarlok og í vor. Það á til að mynda við um jómfrúarferðina því þá kostar miðinn 35 evrur eða 5.100 krónur. Farið er ennþá ódýrara þann 26. apríl því þá þarf aðeins að borga 10 evrur fyrir sætið. Það jafngildir 1.460 krónum. Og ef flogið er heim fjórum dögum síðar kostar farið báðar leiðir 7.300 kr.

En eins og þeir þekkja sem ferðast hafa með Wizz Air þá rukkar félagið aukalega fyrir allan farangur sem ekki kemst undir sætin fyrir framan.

Kynning: Smelltu hér til að skoða gistingu í Feneyjum